Gervigreind - Inngangur og læsi
/
Námskeið sem veitir grunnþekkingu og innsýn í gervigreind og hvernig hún virkar

EDIH-IS og Opni háskólinn bjóða nú upp á nýtt inngangsnámskeið í gervigreind, Gervigreind – Inngangur og læsi, kennt af Sögu Úlfarsdóttur, verkfræðingi með yfir áratugsreynslu í gervigreind og gagnavísindum.
Á heimasíðu Opna Háskólans er eftirfarandi lýsing á námskeiðinu: „Þátttakendur fá leiðsögn um þróun gervigreindar, helstu kerfistegundir (svo sem spálíkön, spjallkerfi og sjálfstæð kerfi) og hvernig íslensk fyrirtæki og stofnanir nýta þau. Einnig verður fjallað um siðferðileg álitamál, skekkjur í gögnum og áhættu tengda persónuvernd og notkun lokaðra AI-kerfa. Markmiðið er að útbúa þátttakendur með þekkingu til að taka upplýstar og ábyrgar ákvarðanir um innleiðingu gervigreindar í eigin starfsemi.“
„Það eru næstum allir og ömmur þeirra farnir að nota gervigreindar spjalllausnir á sama tíma og ákveðinn hópur vill alls ekki sjá þetta. Það hreyfist allt mjög hratt og óvíst hvert þetta stefnir svo eðlilega er ákveðin hræðsla í kringum það. Flest fyrirtæki eru spennt fyrir möguleikunum sem fylgja þessari tækni en fá hafa unnið mikla vinnu í kringum hana eða hvað þá myndað stefnu varðandi notkun hennar.“ segir Saga en samkvæmt henni er námskeiðið sérstaklega gagnlegt fyrir þá sem vilja nýta gervigreind á ábyrgan hátt án þess að þurfa að verða tæknisérfræðingar.“
Námskeiðið er í boði bæði á íslensku og ensku. Það er stafrænt og aðgengilegt í kennslukerfi Opna háskólans.
Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Opna Háskólans.


