Konur í gervigreind

/

Þver-evrópskur vinnuhópur kvenna í gervigreind settur af stað á Íslandi

Þann 17. desember s.l. fór fram vinnustofa í Hannesarholti þar sem haldinn var fyrsti viðburður hins nýstofnaða þver-evrópska vinnuhóps Women in AI. Vinnuhópurinn var stofnaður að frumkvæði EDIH á Íslandi sem mun leiða starfið innan Evrópu næstu þrjú árin.


Markmið vinnuhópsins er að varpa ljósi á skekkju (e. bias) í gervigreind, hvetja konur til þátttöku og leiðtogastarfa á sviði gervigreindar og efla tengslanet kvenna þvert á Evrópu. Verkefnið fer formlega af stað á evrópskum vettvangi nú ´í janúar, en vinnustofan í Hannesarholti var mikilvægt fyrsta skref í að móta áherslur og framtíðarsýn hópsins.


Um 70 konur með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu úr ólíkum geirum tóku þátt í viðburðinum. Um helmingur þátttakenda hefur yfir 10 ára reynslu í tæknigeiranum, en meðal þeirra sem mættu voru frumkvöðlar, sérfræðingar, rannsakendur, stjórnendur, nemendur, listamenn og konur með fjölbreyttan bakgrunn úr ólíkum áttum.


Kolfinna Tómasdóttir, verkefnastýra EDIH Íslandi og sérfræðingur hjá Rannís, hélt opnunarerindi og stýrði viðburðinum. Sérstakur gestur var Thelma Christel Kristjánsdóttir, lögfræðingur og meðstofnandi Jónsbókar, sem hélt erindi þar sem hún fjallaði um skekkju í gervigreind og mikilvægi þess að hanna og þróa tæknilausnir með fjölbreytileika og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.

Í umræðum kom skýrt fram að skekkja í gervigreind sé ein af stærstu áskorunum samtímans. Mikil áhersla var lögð á mikilvægi tengslamyndunar, færniuppbyggingu, rannsókna og leiðtogahlutverka kvenna innan gervigreindar, en allt eru það atriði sem munu móta forgangsröðun vinnuhópsins á fyrsta starfsári.


„Það var frábært að fá svona góða mætingu viku fyrir jól og virkilega dýrmætt að ná samtali við stóran hóp kvenna á ólíkum aldri og úr ólíkum geirum. Það eru forréttindi að fá að leiða þennan vinnuhóp þvert á Evrópu og nýta styrkleika Íslands á sviði kynjajafnréttis í því starfi“ sagði Kolfinna eftir viðburðinn. „Þrátt fyrir að vera lítil þjóð getum við látið til okkar taka í alþjóðlegu samstarfi en það er bæði gefandi og gleðilegt að finna meðbyrinn með þessum málaflokki.“


Næstu skref vinnuhópsins snúa að því að setja skýrar línur fyrir starf hans næstu þrjú ár, byggja upp öflugt þver-evrópskt samstarf og halda fleiri viðburði þar sem konur í gervigreind koma saman. Samhliða því verður unnið að markvissum aðgerðum sem miða að því að auka áhrif kvenna í gervigreind, bæði þegar kemur að stefnumótun, nýsköpun og hagnýtri innleiðingu, með því að styðja við stefnu stjórnvalda á sviði gervigreindar.


Við mælum með að áhugasöm fylgi EDIH á Íslandi á LinkedIn en þar verða birtar fréttir af næstu skrefum Kvenna í gervigreind.

IN OTHER NEWS

6. janúar 2026
Pan-European Working Group - Women in AI - Launched in Iceland
29. desember 2025
Origo supports advanced research and innovation by providing HPC capacity for SMEs and PSOs
10. desember 2025
A course that provides foundational knowledge and insight into artificial intelligence and how it works
SEE MORE