Nýtt meistaranám í gervigreind og styrkur til náms í máltækni

/

Háskólinn í Reykjavík mun næsta haust í fyrsta sinn bjóða upp á meistaranám í gervigreind við tölvunarfræðideild skólans. Þótt HR hafi um árabil verið framarlega þegar kemur að kennslu og rannsóknum á gervigreind er um nýja námsleið að ræða og viðbót við það framhaldsnám sem er nú þegar kennt við tölvunarfræðideild.


Meistaranám í gervigreind er hannað til að veita nemendum djúpan skilning og færni í að þróa, þjálfa og nýta gervigreind í margvíslegum tilgangi. Auk þess munu nemendur kynnast þeim siðferðislegu áskorunum sem fylgja þróun og notkun tækninnar, og læra hvernig hægt er að nálgast þessar áskoranir á ábyrgan hátt.


„Það er afar mikilvægt að á Íslandi sé boðið upp á metnaðarfullt og framsækið framhaldsnám. Með því að efla sérfræðiþekkingu í gervigreind styrkjum við samkeppnishæfni landsins á alþjóðavísu og aukum tækifæri til nýsköpunar innanlands. Með þessu nýja meistaranámi í gervigreind leggjum við í HR okkar lóð á vogarskálarnar með það að markmiði að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina,“ segir Henning Arnór Úlfarsson, deildarforseti tölvunarfræðideildar HR.


Samhliða þessari nýju námslínu hefur verið settur á laggirnar styrkur til meistaranáms í gervigreind með áherslu á máltækni (MSc in Artificial Intelligence with an emphasis on Language Technology; AILT).


Styrkurinn er nefndur eftir Baldri Jónssyni heitnum, prófessor í íslenskum fræðum, en hann leiddi fyrsta máltækniverkefnið sem unnið var á Íslandi. Í ár eru 50 ár frá því að niðurstöður verkefnisins voru gefnar út í verkinu „Tíðni orða í Hreiðrinu: tilraunaverkefni í máltölvun“ árið 1975. Vegna þessa verkefnis er íslensk máltækni því 50 ára í ár.


Styrkupphæð er sem nemur skólagjöldum meistaranema og er veittur til eins árs í senn. Styrkurinn verður endurnýjaður fyrir síðara árið í náminu ef styrkþegi sýnir góða frammistöðu í námi. Styrkhæfni verður metin út frá menntun, viðeigandi bakgrunni og innsendum gögnum.


Hér er hægt að finna frekari upplýsingar um námið og tengil á skráningu.

IN OTHER NEWS

15. október 2025
Join us for this exciting fundraising event hosted by Women Tech Iceland
12. október 2025
Driving Nordic Innovation in HPC and AI!
22. september 2025
Workshop on Grant Proposal Writing for the EU Research and Innovation Programme Horizon Europe and the European Research Council (ERC)
SEE MORE