Gervigreind og samfélagið: Að tengja saman nýsköpun og ábyrgð

/

Ráðstefnan AI & Society sameinaði sérfræðinga og fagfólk til að ræða áhrif gervigreindar og mikilvægi ábyrgðar í hraðri tækniframþróun.

Þann 17. janúar stóð Opni Háskólinn við Háskólann í Reykjavík fyrir ráðstefnunni AI & Society: Bridging Innovation and Responsibility í samstarfi við EDIH – Miðstöð Stafrænnar Nýsköpunar, CADIA – Gervigreindarsetur HR og IIIM – Vitvélastofnun Íslands. Á ráðstefnunni voru samankomnir leiðandi sérfræðingar og fagfólk til að ræða áhrif gervigreindar á samfélagið.


Í upphafi dags bauð Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, gesti velkomna og fylgdi Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, því eftir með ávarpi þar sem hann lagði áherslu á einstök tækifæri og áskoranir Íslands í heimi hraðrar þróunar gervigreindar. Lykilræðuna flutti Serge Belongie, forstöðumaður Pioneer Center for Artificial Intelligence í Kaupmannahöfn og prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem hann fjallaði um möguleika og takmarkanir á sviði gervigreindar.


Fyrirlestrar og pallborðsumræður snertu meðal annars á ábyrgri þróun gervigreindar, áskorunum í reglugerðarmálum og hagnýtum lausnum á ýmsum sviðum. Pallborðsumræður fjölluðu um málefni eins og tækifæri og áhættu sem fylgja notkun gervigreindar í heilbrigðiskerfinu, jafnvægi milli skilvirkni og friðhelgi einkalífs á opinberum vettvangi og auknar áhyggjur af öryggismálum tengdum gervigreind. Fjórar megináherslur ráðstefnunnar – gervigreind í sprotafyrirtækjum, heilbrigðiskerfi, opinberri stjórnsýslu og netöryggi – sköpuðu vettvang fyrir mikilvægar umræður um verndun einkalífs, gagnsæi og samfélagslegan ávinning af notkun gervigreindar.


Bridget Burger, verkefnastjóri við Háskólann í Reykjavík og fulltrúi EDIH-IS, stýrði pallborðsumræðum um gervigreind og netöryggi undir yfirskriftinni “Is the genie out of the bottle?” Umræðurnar lögðu áherslu á mikilvægi þess að sameina nýsköpun og ábyrgð í þessari hröðu þróun.


Deginum lauk með Gervigreindarhátíð CADIA, opnum viðburði fyrir alla áhugasama um gervigreind. Serge Belongie opnaði hátíðina með fyrirlestri um það hvort gervigreindin sé í raun greind, Saga Ulfarsdóttir, AI ráðgjafi, flutti áhugaverðan fyrirlestur um það hvernig gervigreind getur á sama tíma verið bæði minna og meira áhrifamikil en við höfðum nokkru sinni ímyndað okkur og Henning Ulfarsson, deildarforseti Tölvunarfræðideildar HR, ræddi þær áskoranir sem fylgja kennslu á tímum gervigreindar.


EDIH-IS er stolt af því að hafa tekið þátt í þessari vel heppnuðu ráðstefnu og stuðlað að áframhaldandi umræðu um nýsköpun og ábyrgð í gervigreind.


Myndir: Háskólinn í Reykjavík


IN OTHER NEWS

25. júní 2025
Save the date for the Nordic HPC Summit 2025
24. júní 2025
Open Calls for Proposals under the Digital Europe Programme (DEP) to Strengthen Cybersecurity
27. maí 2025
EDIH-IS is pleased to host a dedicated event to introduce artificial intelligence to Landspítali UNIVERSITY HOSPITAL STAFF
SEE MORE